andleg líðan, verkir, heilsuborg

ANDLEG LÍÐAN OG VERKIR

Námskeiðið er ætlað þeim sem glíma við þráláta verki sem þeim finnst þeir ekki hafa stjórn á og andleg líðan er farin að bera þess merki. Vandinn getur ýmist verið nýtilkominn eða langvinnur, hann getur átt sér augljósar orsakir eða verið án læknisfræðilegra skýringa.


Markmið námskeiðsins er að efla færni þátttakenda til að draga úr verkjaupplifun og/eða lifa með sínum verkjum. Sérstök áhersla verður lögð á að vinna með viðhorf til verkja.

Námskeiðið fer fram í litlum hópum. Byggt er á hugrænni atferlismeðferð og núvitund (mindfulness). Í upphafi er lögð áhersla á að fjalla um samspil andlegrar og líkamlegrar heilsu.

Kenndar verða aðferðir til að takast á við verki með hugrænum og atferlistengdum aðferðum en einnig með iðkun núvitundar og samkenndar. Markmiðið er m.a. að þátttakendur læri aðferðir til að breyta eigin líðan með því að endurmeta hugsanir sínar og stýra eigin hegðun. Núvitundarþjálfun miðar að því að hjálpa fólki að öðlast skilning á líðan sinni, andlegri jafnt sem líkamlegri, og velja viðbrögð sem eru hverjum og einum mest í hag.

Kennt er vikulega í sex skipti, tvær klukkustundir í senn. Byggt er á fræðslu, verkefnavinnu, umræðum, heimaverkefnum og hugleiðsluæfingum.

Kennarar: Elva Brá Aðalsteinsdóttir og Sigrún Ása Þórðardóttir sálfræðingar í Heilsuborg.

Næsta námskeið hefst í haust.  

Hulda Mýrdal, fótboltakona, heilsuborg.is, andleg líðan og verkir

Ég lærði að breyta vonleysi í jákvæðar hugsanir

Ég hef æft fótbolta frá því að ég var 5 ára. Ég lendi svo í því að fá slæmt olnbogaskot aftan á hnakkann þegar ég var að keppa árið 2015 með þeim afleiðingum að ég fæ heilahristing. Á þessum tíma hefði mig aldrei grunað hvað lífið ætti eftir að taka mikla u-beygju og hvaða afleiðingar þessi heilahristingur ætti eftir að hafa. Ég var 26 ára þegar þetta gerðist. Dagana eftir höggið fór ég að finna fyrir stöðugum höfuðverkjum, mikilli ógleði, svima, sjóntruflunum og þreytu. Ég reyndi að harka þessi einkenni af mér í rúmlega 8 mánuði og mér versnaði mikið yfir þann tíma því ég hlustaði ekki á líkamann. Ég þurfti að hætta í vinnu og skóla og hef ekki getað spilað fótbolta síðan. Ég varð mjög hrædd því ég skildi ekki öll þessi einkenni og vildi í raun ekki trúa þessu. Ég þurfti að einangra mig mjög mikið frá fjölskyldu og vinum því ég þoldi ekkert áreiti og hávaða. Þegar ég fór út úr húsi var ég með sólgleraugu og eyrnatappa. Þegar fótunum er kippt svona undan manni er mjög erfitt að vita hvað maður á að gera eða hvert maður á að snúa sér því maður ekki hefur gengið í gegnum þetta áður.

Verkir og vonleysi
Þegar ég hafði ekki náð bata eftir ár og var enn með einkenni var útlitið svart. Ég var illa haldin af verkjum og það er erfitt að geta ekki hitt fólk. Ég var því mjög langt niðri andlega. Á sama tíma fór ég í gegnum mikla afneitun. Ég hafði alltaf verið mikil íþróttamanneskja og reyndi hvað eftir annað að sækja þær líkamsræktarstöðvar sem ég hafði áður sótt. Þar fór ég stöðugt að bera mig saman við það sem ég gat gert áður og það olli mér mikilli vanlíðan. Það voru læti inn í stöðvunum, ég ofgerði mér og lá þess vegna út af í marga daga eftir æfingar. Þetta hentaði mér ekki lengur og ég var orðin vonlítil um að nokkuð myndi breytast.
Átta mánuðum síðar fór ég á Grensás og fékk loksins að vita að þetta ástand væru þekkt eftirköst heilahristings og að ég væri ekki sú eina sem hefði upplifðað þetta. Ég hafði aldrei heyrt um Heilsuborg en ráðgjafi hjá Virk mælti með að ég færi þangað. Fyrst fór ég í sjúkraþjálfun í Heilsuborg og prófaði ræktina þar með stuðningi sjúkraþjálfara en fann að ég var ekki tilbúin.

Í Heilsuborg fóru hlutirnir að gerast
Það var ekki fyrr en ég hitti Sigrúnu Ásu sálfræðing hjá Heilsuborg sem eitthvað fór að breytast. Það kom í ljós að ég hafði verið að gera allt of mikið og hunsað eigin verki. Ég ætlaði allt á hörkunni og sýndi sjálfri mér enga samkennd. Ég vildi halda fast í þá manneskju sem ég var fyrir. Ég þurfti að staldra við og horfast í augu við raunverulegulegt ástand. Ég átti erfitt með daglegt líf fyrir þyngslum í hausnum og því fylgdu svefntruflanir. Sigrún Ása hjálpaði mér að kortleggja verkina og fór að einblína á lausnir fyrir verkina. Ég fór að skoða hvað það væri sem ýtti undir verki, ég hætti að gera það sem var slæmt fyrir mig og fór að taka lítil skref í átt að bættri líðan. Þarna má segja að ég hafi fengið von aftur. Vonleysið minnkaði því ég sá að ég gat náð einhverjum tökum á því sem ýfði upp einkennin. Ég hafði einhverja stjórn og gat farið að einblína á að gera allt sem ég gat til að minnka verkina. Vonleysið varð minna og mér leið betur.

Gott að hitta fólk sem upplifði það sama og ég
Svo fór ég á námskeiðið Andleg líðan og verkir. Mér fannst mjög hjálplegt að hitta fólk í sömu stöðu og ég. Það voru allir að takast á við ósýnilega verki og það upplifðu allir skilningsleysi. Ég hef sjálf fundið fyrir þessu að þegar verkir eru ósýnilegir þá þarf maður meira að útskýra og fræða. Maður þarf líka að læra að setja mörk. Fólk gerir sömu kröfur á þig þegar það sér ekki að þú ert með verki og maður þarf að læra að setja sjálfan sig í fyrsta sæti. Ég lærði þarna að það eru fleiri í sömu stöðu og ég og við gátum hjálpast að. Þegar það koma verkir þá er hægt að takast á við þá á raunsæjan hátt og það er betra en að detta í vonleysi.

Jákvæðar hugsanir í stað vonleysis
Námskeiðið snýst um að breyta vonleysi og neikvæðum hugsunum yfir í rökréttar hugsanir. Þó maður verði ekki alltaf 100% þá getur maður samt gert heilmikið – og þó maður liggi heima með verki í heilan dag þá er heimurinn ekki að hrynja. Manni er kennt að tileinka sér jákvæðar hugsanir.
Fyrir slysið var hreyfing mér allt. Nú hef ég lært að í stað þess að syrgja það sem var einbeiti ég mér að því að skoða hvað ég get gert til að láta mér líða sem best. Þessum bata náði ég með liðsinni fagfólksins í Heilsuborg.
Annað sem er frábært við þetta námskeið er að manni er kennd slökun og hugleiðsla – að ná sér í heilahvíld. Fyrir námskeiðið hélt ég að besta leiðin til að hvíla sig væri að sofna. Ég fór oft inn í herbergi til að reyna að sofna en án árangurs. Nú veit ég að hugleiðsla getur verið nóg, þannig nær heilinn að hlaða sig.

Ég þarf að gera hlutina á eigin forsendum
Allskonar hreyfing var mér allt. Þannig fékk ég útrás og það er erfitt að geta ekki gert það sama og áður. En nú veit ég að ég þarf bara að gera hlutina á mínum eigin forsendum og ekki vera að bera mig saman við aðra. Spinning, Tabata og Hot yoga tilheyra fortíðinni, ég nýt þess að koma í Heilsuborg og geta gert léttar æfingar á mínum eigin hraða.

Þægilegt umhverfi í Heilsuborg
Mér finnst þægilegt að það sé engin tónlist í Heilsuborg. Umhverfið er rólegt og það hjálpar mér að setja ekki pressu á sjálfa mig. Ég er aðeins þarna fyrir sjálfa mig og eigin heilsu.
Heilsuborg er fyrir fólk sem vill aðeins rólegra umhverfi, fólk sem vill láta sér líða betur og vill gera það hægt og rólega án öfga. Heilsuborg er góður staður til að koma sér i gang efti veikindi og slys – og líka fyrir alla hina. Maður finnur líka að hér er fólk sem spjallar saman og sýnir í leiðinni hvoru öðru stuðning og samkennd. Þetta er eiginlega bara mjög kósí samfélag.

Ég vil láta gott af mér leiða
Ég er í námi í Háskólanum og get vonandi farið í fullt nám næsta haust. Þessi tími eftir slysið hefur líka kennt mér ofboðslega margt. Ég er miklu opnari fyrir að prófa nýja hluti og nýt tímans með fólkinu mínu miklu betur. Ég fann þó fyrir gríðarlega miklum söknuði eftir fótboltanum. Fyrsta árið gat ég ekkert horft á hann en svo fór ég að hugsa hvernig ég gæti nú haft einhver jákvæð áhrif. Það þýðir ekkert að horfa endalaust til baka. Ég bjó því til Instagramið Heimavöllurinn sem er einskonar heimavöllur knattspyrnu kvenna. Það er til að gera fréttir af fótboltastelpunum okkar aðgengilegri og fyrirmyndirnar sem við eigum sýnilegri.

Mér líður miklu betur í dag. Það segir sig sjálft, þegar verkirnir minnka þá líður manni betur. Ég ætla mér að gera allt sem mér dettur í hug og það er jafnvel enn skemmtilegra en áður. Ég hef verið að halda fyrirlestra um höfuðhögg í fótbolta. Einnig hef ég haldið fyrirlestra um jákvætt hugarfar og hvernig ég fór að því að snúa lífinu sem var komið á hvolf í skemmtilegt líf.

Ég hafði aldrei heyrt um alvarleika og hugsanlegar afleiðingar heilahristings. Þegar maður er 26 ára býst maður heldur ekki við því lífinu manns sé snúið á hvolf. Maður kann ekkert á það og veit ekkert hvað er hægt að gera. Það skiptir mig því miklu máli að deila minni reynslu svo þeir sem lenda í svipaðri stöðu viti að það eru fullt af leiðum í átt að bata.

Hulda Mýrdal, nemi og fyrrverandi fótboltakona

Elva Brá Aðalsteinsdóttir
sálfræðingur

STUNDASKRÁ


29. apríl (mán) kl. 13:00–15:00
6. maí (mán) kl. 13:00–15:00
21. maí (þri) kl. 09:00–11:00
27. maí (mán) kl. 13:00–15:00
3. júní (mán) kl. 13:00–15:00
7. júní (fös) kl. 09:00–11:00

VERÐSKRÁ


Heildarverð 69.800 kr

KAUPA NÁMSKEIÐ

INNIFALIÐ

  • Handbók er afhent í upphafi námskeiðs, sem inniheldur bæði fróðleik og ýmis verkefni
  • Hugleiðsluæfingar sem byggja á hugmyndafræði núvitundar og samkenndar
  • Hópmeðferð hjá sálfræðingi, 6 skipti, 2 tímar i senn

UMMÆLI ÞÁTTTAKENDA

„Yndislegt námskeið sem hefur hjálpað mér að ná meiri ró í mínu daglega lífi og einnig hjálpað mér að sjá sjálfan mig á jákvæðari hátt.

Ég fer með fullt af nýjum verkfærum af þessu námskeiði sem ég ætla að halda áfram að tileinka mér.”

„Gott að koma úr ströggli hugans í verkjaupplifun og fá skilning á hvernig líkami og hugur vinna saman.

Frábært að fá öll þau verkfæri afhent með brosi frá Sigrúnu og Elvu.

Skiptir máli að vera í hópi með fólki sem skilur upplifun af verkjum.”

„Námskeiðið fór langt fram úr væntingum mínum. Kennararnir eru báðar afar færar, nálgast þátttakendur af mikilli virðingu og næmni og legja mikla áherslu á að öllum líði vel á námskeiðstímanum. Ég tek ótal góða og gagnlega hluti með mér af námskeiðinu og stend miklu betur að vígi við að takast á við mína verki og lifa með þeim. Verkfærakistan mín er frábær og ég hlakka til að nota hana áfram að námskeiði loknu enda örugg með það sem ég hef tileinkað mér á námskeiðinu. Takk Sigrún & Elva! Þið eruð frábærar 😊 ”