Hugræn atferlismeðferð við verkjum, HAM, Heilsuborg.is

Hugræn atferlismeðferð við langvinnum verkjum

Langvinnir verkir eru algengir og afleiðingar þeirra geta verið víðtækar og alvarlegar. Rannsóknir hafa gefið til kynna að allt að 80% heimsókna til heimilislækna séu vegna verkja af einhverju tagi. Um 46% almennings glíma við langvinna verki og svo virðist sem þeir séu algengari meðal kvenna. 

Óhætt er að gera ráð fyrir að um 11% fullorðinna glími við alvarlega langvinna verki.

Ólíkt eðli verkja

Munur er á bráðaverkjum og langvinnum verkjum, raunar eru hinir fyrrnefndu lífsnauðsynlegir fyrir okkur. Bráðaverkir (öðru nafni sársauki) eru skilgreindir sem óþægileg skynjun eða tilfinningaleg upplifun vegna skyndilegs eða stöðugs áreitis sem gefur til kynna yfirvofandi eða raunverulegar vefjaskemmdir.

Heilinn ræður

Bráðaverkir eru hluti af mikilvægu viðbragðskerfi líkamans. Verkir eiga uppruna sinn í sjálfum heilanum því þegar líkamshluti verður fyrir skaða örvast taugaendar sem senda boð til heilans. Heilinn nemur boðið, vegur það og metur út frá samhengi, og annaðhvort býr til verk eða ekki, allt eftir því hvernig hann túlkar boðið. Aðstæður sem fólk er í og staðsetning eru dæmi um samhengi, en einnig viðhorf, gildi, skilningur og þekking okkar á því sem við upplifum. Samhengið gefur upplifun okkar þannig ákveðna merkingu. Við skynjum verk þegar heilinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að sterkar vísbendingar séu um að líkaminn sé í bráðri hættu – þá ræsir hann viðbragðskerfi líkamans. Boð fara til annarra stöðva heilans, sem valda því að líkaminn bregst við með einhverjum hætti til að koma í veg fyrir frekari skaða.

Bráðaverkir til langs tíma geta farið á yfirsnúning

Yfirleitt hverfa bráðaverkir þegar vefur er gróinn eða þegar sjúkdómur hefur verið meðhöndlaður, viðbragðskerfi líkamans dregur þannig úr starfsemi sinni þegar „hætta“ steðjar ekki lengur að líkamanum. Bráðaverkir geta þó varað í allt að 12 vikur en talað er um langvinna verki ef þeir vara lengur en 12 vikur.

Viðbragðskerfið virkar vel í skamman tíma en ekki jafn vel þegar það er virkt í langan tíma. Þá má segja að það fari á yfirsnúning. Í þeim tilvikum þarf heilinn stöðugt minna áreiti til að vekja upp verkina – sársaukaþröskuldurinn lækkar. Því lengri sem tíminn er sem miðtaugakerfið þarf að verja okkur á þennan hátt, því öflugra verður það í þessu hlutverki sínu; vítahringur verður til, þar sem verkir magna upp verki.

Víðtæk áhrif

Langvinnt verkjaástand hefur ekki aðeins áhrif á viðbragðskerfið, breytingar geta einnig orðið á hreyfingum, tilfinningum, hugsun, hormónastarfsemi og annarri mikilvægri líkamsstarfsemi. Úr verður flókið verkjaástand.

Annars vegar geta verkirnir stafað af því að fólk glímir við langvinnan vanda, t.d. krabbamein eða gigt. Hins vegar geta langvinnir verkir hrjáð fólk án þess að læknisfræðilegar skýringar liggi fyrir, t.d. ef þeir vara mun lengur en áverkinn sem olli þeim í upphafi; engu að síður upplifir fólk verkina og þjáist vegna þeirra. Þeir hafa með öðrum orðum engan verndandi tilgang en trufla á margan hátt líðan og lífsgæði fólks.

Langvinnir verkir hafa margvísleg neikvæð áhrif á andlega, vitræna, líkamlega og félagslega líðan og virkni fólks. Rannsóknir hafa gefið til kynna að allt frá 16% til 56% fólks með langvinna verki glími einnig við þunglyndi. Langvinnir verkir hafa enn fremur slæm áhrif á svefn, sambönd og áhugamál og raunar á öll svið lífsins. Í einni rannsókn mátti sjá að rúmlega 60% þátttakenda bjuggu við minni starfsgetu eða gátu yfirleitt ekki stundað vinnu vegna verkjanna. Langvinnir verkir eru algeng ástæða örorku á Íslandi en það sem af er þessu ári voru um 21% öryrkja á bótum vegna stoðkerfisvandamála. Langvinnir verkir eru því dýrir, bæði einstaklingum og samfélaginu í heild

Hægt er að auka líkur á árangri

Eins og fram hefur komið er þunglyndi algengur fylgikvilli langvinnra verkja og auk þess mjög samofið framvindunni í því þegar verkir verða þrálátir. Vitað er að samspilið milli þunglyndis og verkja getur haft neikvæð áhrif á meðferð og einnig að verkjameðferð dugi ekki til til að draga úr þunglyndiseinkennum. Auka má líkur á árangri með því að einblína jöfnum höndum á verki og þunglyndiseinkenni í meðferð. Kvíði og áfallastreitueinkenni geta einnig haft þessi sömu neikvæðu áhrif á framvindu meðferðar. Nýlegar rannsóknir gefa til kynna að mikið samspil sé milli kvíða og verkja; kvíði viðhaldi og magni upp verki og verkir viðhaldi og auki kvíða.
Hjá þeim sem glíma við langvinna verki getur kvíði verið vísbending um hve alvarlegir verkirnir verða; því meiri kvíði – því meiri verkir.

HAM – öflug meðferð

Hugræn atferlismeðferð (HAM) hefur gefið góða raun við meðhöndlun á ýmsum langvinnum sjúkdómum, svo sem gigtarsjúkdómum, höfuðverkjum og verkjum í mjóbaki. Fjallað hefur verið um að hugræn atferlismeðferð skipti sköpum við meðferð langvinnra verkja og geti leitt til þess að verkjaupplifunin minnki, virkni aukist og lífsgæði fólks sömuleiðis.

HAM gefur góða raun, einkum og sér í lagi þegar kvíði er áberandi í vanlíðan fólks. Kvíðinn birtist þá helst í því að fólk leitar huggunar eða fullvissu, áhyggjur eru þrálátar og fólk forðast ákveðnar hreyfingar eða aðstæður. HAM meðferð við verkjum byggir á því að verkur sé afleiðing flókins samspils milli undirliggjandi líkamlegs vanda og svo hugsana, tilfinninga og hegðunar þess sem glímir við vandann.

Meðferðin miðar að því að hjálpa fólki að breyta óhjálplegum hugsunarhætti og hegðun sem viðheldur og magnar upp verkjaupplifunina. Markmiðið er að draga úr þeim áhrifum sem verkir hafa á daglegt líf, kenna aðferðir til að takast betur á við verki, auka líkamlega virkni og draga úr tilfinningavanda og því að forðast hluti eða að fresta þeim. Bent skal á að það að draga úr verkjum er ekki meginmarkmið, heldur skiptir mestu að draga úr áhrifunum sem verkir hafa á lífsgæði fólks.

Nokkur meðferðarlíkön hafa verið þróuð um hvernig skuli nýta HAM við verkjum, flest eiga þau það sammerkt að í upphafi er veitt fræðsla um verki og kenningar um verki. Á þessu stigi er lögð rík áhersla á að efla áhuga fólks á breytingum og hvetja áfram í þeirri vegferð. Í meðferðinni er einnig unnið að því að hafa áhrif á virkni fólks með líkamsrækt, hvíld og slökun, auk þess að vinna með verkjaþröskulda (pacing).

HAM nýtist við að draga úr þeim tilfinningavanda sem þróast gjarnan samhliða verkjunum, fólki er kennt að koma auga á neikvæðar sjálfvirkar hugsanir því þær geta leitt til þess að fólk hegði sér á ákveðinn máta (t.d. forðist aðstæður, dragi úr virkni og fleira). Fólk er hvatt til að huga að og styrkja eigin bjargráð, til dæmis með því að bæta svefn, leysa úr vanda, vera í núinu, efla félagsleg tengsl, og finna leiðir til að stunda vinnu.
Verkjaþröskuldur er sá tími sem fólk getur tekið þátt í ákveðinni athöfn (hegðað sér á ákveðinn máta) án þess að það leiði til verkjaaukningar. Margir sem glíma við verki finna að það er dagamunur á verkjunum, en verkjaþröskuldurinn gerir fólki kleift að stilla sig af þannig að það komist í gegnum daginn án þess að verkir aukist. Eftir að fólk hefur fundið eigin þröskuld er mögulegt að breyta og bæta við hann svo fólk geti smám saman aukið lífsgæði sín.

Hópmeðferð í Heilsuborg í vetur

Heilsuborg býður nú upp á hópmeðferð á námskeiðinu Andleg líðan og verkir. Þar er farið í saumana á verkjum, afleiðingum þeirra og kenndar aðferðir til að takast á við verkina. Námskeiðið byggir að mestu á HAM en einnig verður fjallað um núvitund (mindfulness) og samkennd í eigin garð.

Meðferðin fer fram einu sinni í viku í sex vikur og varir í 2 klst. í senn. Byggt er á fræðslu, umræðum, verkefnavinnu, heimavinnu og núvitundaræfingum. Verkefnahefti og hugleiðsluæfingar eru innifalin. Sálfræðingar Heilsuborgar, Elva Brá Aðalsteinsdóttir og Sigrún Ása Þórðardóttir, stýra meðferðinni en þær hafa báðar áralanga reynslu af meðhöndlun langvinnra verkja. Athugið að fjöldi þátttakenda er takmarkaður. Upplýsingar um tímasetningar næstu námskeiða er að finna á á heimasíðu Heilsuborgar. Smelltu hér.

Höfundur
Elva Brá Aðalsteinsdóttir, sálfræðingur

Share on facebook
Facebook
Share on twitter
Twitter
Share on print
Print
Scroll to Top