Jóga Nidra í Heilsuborg. Hefur tekið Heilsuborgara með storm.

Hvað er Jóga Nidra?

Jóga Nidra er aldagömul hugleiðsluaðferð sem hefur verið að ryðja sér til rúms í vestrænum samfélögum undanfarna áratugi. Hugleiðslan fer að mestu fram í liggjandi stöðu á dýnu á gólfinu en þó er líka hægt að sitja á stól ef þess þarf.

Nidra samanstendur af líkams-, öndunar- og núvitundaræfingum og er farið markvisst í gegnum ákveðna ferla þar sem við erum leidd frá ytri athygli, í gegnum líkamann og inn á við inn í djúpa kyrrð og þögn sem býr í okkur öllum að baki hugsunum, tilfinningum og gjörðum.
Þar getum við tengst okkar eigin innsæi, okkar eigin visku og getum unnið með persónulegar breytingar í undirvitundinni. Ásetningur eða jákvæðar staðhæfingar eru eitt af því sem einkennir Jóga Nidra umfram aðra hugleiðslu, en með ásetningi/staðhæfingum erum við að „endurforrita“ undirvitundina. Þannig getum við breytt gömlum hugsanamunstrum, vana og
tilfinningum sem þjóna okkur ekki lengur yfir í styrkjandi og styðjandi hugsanir sem hafa áhrif á okkur og aðra í kringum okkur. Jóga Nidra veitir okkur einfaldlega rými til þessarar endurforritunar.

Jóga Nidra hugleiðslan er auðveld því hún byggir á því sem líkaminn kann – að sofna. Jóga Nidra kallast líka „jógískur svefn“ því í hugleiðslunni breytist tíðni heilabylgjanna og verður eins og þegar við sofnum, allt niður í djúpsvefn. Nidra er þó ólíkt svefninum á þann hátt að við dveljum í vakandi vitund í þessu djúpa kyrrðarástandi.

Það getur verið erfitt að stoppa

Streita er vandamál í vestrænum heimi því við erum vön að vera stöðugt að og kunnum ekki að stoppa. Yfir daginn erum við meira og minna í svokölluðu drifkerfi ósjálfráða taugakerfisins þar sem meðal annars streituhormón losna. Í Jóga Nidra virkjum við slökunarhluta
ósjálfráða taugakerfisins – einmitt þar gerir líkaminn við sjálfan sig og endurnærir. Til þess að líkami og hugur búi við góða heilsu þurfum við að hafa jafnvægi á ósjálfráða taugakerfinu og hlúa að djúpri slökun ásamt því að vera virk í lífinu.

Hvað getur Jóga Nidra gert fyrir þig?

Vísbendingar eru um margskonar áhrif Jóga Nidra á líkamsstarfsemina, m.a. losna ýmis hormón og boðefni sem hafa jákvæð áhrif á heilsu og líðan.

Jóga Nidra eykur hæfni okkar til að dvelja í núinu og getur dregið úr kvíða, streitu, áhyggjum og þunglyndi. Það hjálpar okkur að sofa betur og dýpra, styður við mátt líkamans til að heila sig sjálfur og hjálpar okkur að tengjast hugsunum okkar á annan hátt.

Talað er um að við hugsum um 60.000 hugsanir á dag og að um 90% þeirra séu ósjálfráðar, óhjálplegar og óþarfar. Allar þessar hugsanir hafa lífeðlisfræðileg áhrif á okkur; óhjálplegar hugsanir losa streituhormón en hjálplegar hugsanir losa gleðihormón. Þannig getum við séð hvað það skiptir okkur miklu máli að huga að því hvernig við hugsum.

Í gegnum Jóga Nidra gerum við okkur grein fyrir því að við eru ekki hugsanir okkar, heldur annað og meira. Við lærum að bregðast ekki stöðugt við öllu ytra og innra áreiti, heldur lærum að vera vitni að hugsunum og tilfinningum, dvelja eins og himininn, hinn kyrri himinn sem leyfir skýjunum (hugsunum og tilfinningum) að flæða í gegn án þess að gera neitt með þær. Við lærum að velja þær hugsanir sem þjóna okkur og okkar tilgangi og leyfum hinum að fara.

Þannig náum við að kyrra hugann, halda meiri orku sem annars fer í að hugsa of mikið, náum betri einbeitingu og tökumst betur á við verkefni dagsins.

Mikilvægast er að hver og einn upplifi hugleiðsluna á sinn hátt og á sínum forsendum. Við erum öll einstök og hver og einn á sinni leið í lífinu. Sumir vilja nota Jóga Nidra til slökunar, öðlast kyrrari huga og minni streitu – en aðrir til að upplifa sitt sanna sjálf innra með sér. Þannig er hægt að nýta Jóga Nidra á marga vegu allt eftir þörfum hvers og eins. 

Jóga Nidra í Heilsuborg 

Í Heilsuborg er boðið upp á Jóga Nidra námskeið.

Höfundur
Jóhanna Briem, sjúkrahuddari og Amrit yoga Nidra leiðbeinandi

Share on facebook
Facebook
Share on twitter
Twitter
Share on print
Print
Scroll to Top