komdu aftur í heilsugírinn með Heilsuborg - góð ráð frá Gullu, hjúkrunarfræðingi

Að komast aftur í gírinn

Eftir nokkrar vikur í sumarfríi og rútínuleysi, getur verið erfitt að koma sér aftur í gírinn, sérstaklega ef maður hefur dottið alveg úr reglulegri hreyfingu og mataræðið . Vonleysi á það til að hellast yfir mann og þetta er tíminn þegar margir flosna upp úr ræktinni. Ekki láta það koma fyrir þig!
Hér eru nokkrir punktar til að hjálpa þér að komast aftur í gírinn:

1. Streita

Streita á morgnana getur haft slæm áhrif á daginn sem er að byrja. Gefðu þér nægan tíma og vaknaðu fyrr en venjulega. Óþarfi er að kveikja öll ljós þar sem að það er enn sumarbjart úti. Reyndu að ná 6-8 tíma svefni og borðaðu morgunmatinn í rólegheitum og slökun. Ekki detta í símann og vinnuna strax við matarborðið. Nýttu kvöldin til þess að skipuleggja og fara yfir morgundaginn, til að koma í veg fyrir óþarfa streitu.

 • Er allt tilbúið?
 • Eru ræktarfötin komin á sinn stað?
 • Er búið að skipuleggja nestið?

2. Slökun

Þú heldur kannski að þú hafir slakað á í sumarfríinu. En það er nú oftar en ekki þannig að fólk keppist við að gera eitthvað í góða veðrinu og fara eitthvert, NÝTA tímann! Núna, þegar rútínan blasir við er kannski kominn tími á smá núvitund.

 • Taktu frá 5 mínútur
 • Sestu í þægilegan stól
 • Finndu 10 hluti, manneskju, stað eða bara hvað sem er sem þú ert þakklát(ur) fyrir.
 • Hugsaðu um þá einn í einu og sjáðu hlutina, manneskjuna, staðinn, fyrir þér.
 • Réttu út einn fingur í einu fyrir hverja hugsun sem kemur upp í huga þinn.

3. Næringin

Þegar fólk er í sumarfríi vill oft gleymast að borða reglulega. Nýttu tækifærið núna þegar rútínan er að komast í gang og borðaðu reglulega. Skipulegðu matmálstímana og millibitana í stað þess að láta tilviljun ráða hvað og hvenær þú borðar.

4. Skipuleggðu tímann þinn

Þegar rútínan tekur völdin getur verið gott að skipuleggja hana, skoða hvernig haustið lítur út hjá hinum fjölskyldumeðlimunum og hvernig þínar áætlanir passa inn í heildarmyndina.

 • Hvenær ætlar þú í ræktina?
 • Hvað ætlar þú að gera í ræktinni?
 • Hvaða mat ætlar þú að borða?
 • Hvenær ætlar þú að versla í matinn?
 • Hvenær ætlar þú að fara að sofa?
 • Hvað ætlar þú að sofa lengi?

5. Farðu yfir markmiðin þín og settu þér ný

Þegar kemur að allri markmiðasetningu er mikilvægt að vita að hverju þú vilt stefna, hverju langar þig að áorka? Hvers vegna? Hvað langar þig að geta gert betur, hverju langar þig að viðhalda?

 • Eru markmiðin raunsæ?
 • Ertu búin(n) að ná einhverjum þeirra?
 • Er tími til komin að endurnýja þau?

6. Leyfðu rútínunni að komast í gang hægt og rólega.

Að komast í rútínu aftur eftir fríið getur verið erfitt. Umfram allt skaltu ekki ætlast til þess að allt verði auðvelt strax því það er ekki raunhæft. Enginn mætir úr fríi tipp topp með allt á hreinu. Það tekur alltaf tíma að komast aftur í rútínu en ekki gefast upp, vertu einbeitt(ur) en samt slök (slakur) og sannaðu til – þú kemst í rútínuna aftur.

Höfundur
Gulla Akerlie, hjúkrunarfræðingur

Share on facebook
Facebook
Share on twitter
Twitter
Share on print
Print
Scroll to Top