Orkuleysi, þreyta, orkulausnir, heilsuborg.is

Þreyta og orkuleysi – hvað get ég gert?

Margir upplifa þreytu og verki í daglegu lífi. Eftir vinnudaginn eru þeir algerlega búnir á því og hafa ekki orku til að gera það sem þá langar til, stunda útivist eða íþróttir, fara á námskeið eða sinna fjölskyldu og vinum.
Svo eru aðrir sem ekki geta unnið vegna þreytu og verkja. Þetta er vond staða að vera í en í raun er líkaminn að segja okkur eitthvað með þessu.

Líkaminn lætur okkur vita að eitthvað sé að

Mannslíkaminn er gríðarlega sterkt og flókið fyrirbæri. Hann breytist stöðugt og flókin ferli uppbyggingar og endurnýjunar eiga sér stað á hverjum einasta degi. Líkaminn er hannaður til að þola mikið álag, hann er með gríðarlega aðlögunarhæfni og leitast alltaf við að vera í jafnvægi. En þegar eitthvað raskar jafnvæginu lætur líkaminn okkur vita með ýmsum leiðum, t.d. með orkuleysi eða verkjum.

Afdrifaríkt að hunsa skilaboð líkamans

Við þurfum að hlusta á og taka mark á þessum skilaboðum, staldra við og stundum þurfum við að endurskoða aðstæður hjá okkur. Í nútímasamfélagi þar sem hraðinn er mikill og dagsverkin mörg og flókin er auðvelt að hlusta ekki á skilaboðin sem líkaminn sendir okkur til að vara okkur við. Við setjum verkefni og annað fólk framar en líðan okkar sjálfra og fyrr en varir sitjum við sjálf á botni okkar eigin forgangslista. Hver þekkir ekki að setja bara í næsta gír og halda áfram?

En ef við hunsum þannig viðvaranir og skilaboð líkamans ítrekað yfir langan tíma verður niðurbrotið hraðara en uppbyggingin. Fyrr eða síðar kemur að skuldadögum í þeirri stöðu. Það getur gerst hratt.

Líkaminn fer í verkfall

Áður en við vitum af förum við að finna fyrir einkennum frá líkamanum sem við könnumst ekkert við, t.d. langvarandi dreifðum verkjum, síþreytu eða orkuleysi, svefntruflunum, minnisleysi, lélegri sjálfsmynd, kvíða eða depurð.
Allt í einu sitjum við uppi með líkama sem við þekkjum illa og kunnum illa við. Hann lætur ekki að stjórn; viðfangsefni sem okkur þóttu áður einföld virðast nú erfið eða óyfirstíganleg. Líkaminn hefur sagt stopp og eftir sitjum við með það verkefni að koma okkur aftur af stað.

Að koma sér af stað
En hvar skal byrja? Hvernig er hægt að komast aftur út í lífið?
Orkuleysi getur átt sér margar orsakir. Sumar hverjar eru líffræðilegar en aðrar geta tengst lífsstíl og umhverfi. Hægt er að vinna með og breyta ýmsum þeirra, t.d. hvað og hvernig við borðum eða hvernig við beitum okkur. Við getum líka breytt þáttum sem tengjast svefnvenjum og vinnuumhverfi, dregið úr álagi og andlegum þáttum sem tengjast streitu, kvíða og þunglyndi.
Það getur verið erfitt að stíga fyrstu skrefin í átt að betri líðan. Sporin virðast þung og leiðin í átt að betri lífsgæðum og bættri líðan getur virst í órafjarlægð. Að byrja hægt og rólega getur reynst erfitt, sérstaklega þeim sem eru vanir að taka hlutina með trompi og þekkja lítið annað en að vera alltaf á fullu.
Þessir einstaklingar eiga það oft sameiginlegt að leggja mikinn metnað og alúð í það sem þeir taka sér fyrir hendur. Eins öfugsnúið og það nú er þá eru það oft jákvæðir persónueiginleikar eins og dugnaður og elja sem valda því að fólk keyrir sig í þrot. En sem betur fer er oftast hægt að breyta þessum sama dugnaði í uppbyggilegt atferli og nýta á jákvæðan hátt. Þá er gott að hafa í huga að það er ekki alltaf magnið sem gildir, heldur gæðin; stundum getur verið skynsamlegra að gera hlutina hægt og rólega.

Að vinna á vandanum

Góðu fréttirnar eru að margt er hægt að gera til að láta sér líða betur og öðlast meiri lífsgæði. Til að byrja með er gott að setjast niður og átta sig á hver meginmarkmiðin séu – hvað skiptir okkur raunverulega máli og hvernig við getum gert lifnaðarhætti okkar að lífsstíl sem endist, svo við lendum ekki í sama farinu aftur. Þegar þessi markmið eru skýr er hægt að byrja að gera breytingar og vinna að jafnvægi. Hófleg markmið í upphafi geta verið gagnleg. Þannig gefst tími til að læra á eigin líkama og huga, leyfa sér að gera mistök og læra af þeim – halda svo áfram.

Að hreyfa sig reglulega hefur lengi verið vitað að gerir okkur gott á svo margan hátt og í þessum aðstæðum er sérlega mikilvægt að fara rólega af stað. Að kortleggja þá þætti sem virðast valda einkennum er afar gagnlegt og að sama skapi er gott að veita athygli þeim þáttum sem veita vellíðan og hrinda af stað jákvæðum hugsunum. Að einblína á það sem maður getur gert vel og hefur gaman af getur ýtt undir jákvæðar breytingar.
Lykillinn að árangri og auknum lífsgæðum er að viðurkenna og sættast við veikleika okkar en veita styrkleikunum athygli og vinna með þá um leið.

Aðstoð fagfólks

Námskeiðið Orkulausnir er sérsniðið til að taka á þessum vandamálum. Mikið er lagt upp úr reglulegri hreyfingu og að kenna fólki fjölbreyttar og styrkjandi æfingar sem miðast við getu hvers og eins. Þjálfunin er tvisvar í viku og þar er farið rólega i gegnum æfingarnar. Jafnframt er útskýrt hvernig þær virka og hvaða gagn þær gera. Einnig eru kenndar liðkandi æfingar og jafnvægisæfingar, umræður og fræðsla um hvernig hægt er að gera hreyfingu að lífsstíl. Vikulega er leidd slökun.

Reyndir sjúkraþjálfarar Heilsuborgar sjá um þjálfunina og gæta þess að hver og einn fái það besta út úr æfingunum. Jafnframt gefa þeir þátttakendum góð ráð um hvernig hægt sé að gera hreyfingu að lífsstíl á þeirra eigin forsendum.
Áður en námskeiðið hefst fara þátttakendur í einstaklingsviðtal við sjúkraþjálfara. Það er afar gagnlegt þar sem farið er yfir sögu hvers og eins og um leið lagðar línur varðandi þjálfunina.
Í Orkulausnum eru haldnir fræðslufundir um efni sem tengjast viðfangsefninu. Þar e m.a. ítarleg fræðsla um svefnvenjur, áhrif svefnleysis og heilræði um hvernig hægt sé að sofa betur. Einnig er fræðsla um rétta líkamsbeitingu og áhrif hennar og annar fræðslufundur um verki, ástæður þeirra og leiðir til að glíma við þá. Sérfræðingar Heilsuborgar halda fræðslufundina, sjúkraþjálfarar og læknir.

Orkulausnir eru námskeið sem hafa verið haldin reglulega í 7 ár i Heilsuborg. Fjöldi fólks hefur öðlast betra líf og líðan með því að taka þátt í Orkulausnum. 

Höfundur
Audrey Freyja Clarke, sjúkraþjálfari

Share on facebook
Facebook
Share on twitter
Twitter
Share on print
Print
Scroll to Top