Gulla Akerlie, hjúkrunarfræðingur

Sumarleg heilsuráð Gullu hjúkrunarfræðings í Heilsuborg

Regluleg hreyfing, bætir og kætir

Regluleg hreyfing hefur fjölþættan ávinning fyrir heilsuna. Þeir sem hreyfa sig reglulega minnka meðal annars líkurnar á að fá margvíslega sjúkdóma. Umfram allt eykur regluleg hreyfing líkurnar á að fólk lifi lengur og við betri lífsgæði en annars. Kyrrseta getur haft slæmar afleiðingar fyrir heilsu fólks, meðal annars vegna stoðkerfisvanda. Nýttu tækifærið og fáðu smá hreyfingu utandyra í þessu góða veðri.

Vatn er besti svaladrykkurinn

Þegar hitnar í veðri gleymir fólk oft að drekka. Á Íslandi erum við svo heppin að við höfum víðast hvar gott aðgengi að drykkjarvatni beint úr krananum. Vatn inniheldur enga orku, engin sætuefni og enga sítrónusýru og er því ákjósanlegasti kosturinn til að svala þorstanum og viðhalda vökvajafnvægi líkamans. Til viðbótar við kranavatnið er til kolsýrt vatn í miklu úrvali hér á landi. Til tilbreytingar má alltaf bragðbæta vatnið, t.d. með ávaxtasneiðum.

Próteinin byggja þig upp

Vöðvarnir okkar þarfnast próteins úr fæðunni. Grunneining próteina eru amínósýrur sem eru alls 22 talsins. Níu þeirra er líkamanum nauðsynlegt að fá úr fæðu, hinar getur hann búið til sjálfur. Prótein hafa margskonar hlutverk, aðallega sem byggingarefni og orkuefni. En þekktast er án efa hlutverk próteina í vöðvauppbyggingu. Höfum prótein með í hverri máltíð því mikilvægt er að þau komi jafnt og þétt.

Trefjarnar standa með þér

Trefjar hægja á frásogi sykurs út í blóðið og eiga þátt í að halda insúlínnæmi eðlilegu. Þannig hafa þær heilmikil áhrif á tilurð og meðferð á sykursýki 2. Með hagstæðum áhrifum á insúlinstjórnunar og með því að auka mettunar tilfinningu geta trefjar hjálpað til við þyngdarstjórnun. Þær eru taldar draga úr líkum á hjarta- og æðasjúkdómum, háþrýstingi og bæta blóðfitur. Einnig eru þær taldar geta dregið úr sumum tegundum krabbameina og minnkað líkur á bólgusjúkdómum. Þær hafa einnig afgerandi áhrif á þarmaflóruna sem aftur getur bætt heilsuna á ýmsan máta. Það er því til mikils að vinna að borða trefjaríkan mat.

Nældu þér í góða fitu

Aðalhlutverk fitu í fæðunni er að vera orkugjafi. Fita hefur lengi haft óorð á sér vegna þeirrar miklu orku og hefur þar af leiðandi verið tengd offitu sterkum böndum. En fita er ekki bara fita.

Til að fá hollar fitur getur þú borðað meira af fiski, sérstaklega feitum fiski eins og laxi, lúðu og síld og tekið lýsi. Borðað lárperu (avakado), ólívur, hnetur, möndlur og fræ. Prófaðu þig áfram með hummus, pestó og tahini sem álegg. Notað meira af fræjum og hnetum á salatið, í morgunverðinn, í millibitann og í baksturinn. Notað lítið unnar olíur (kaldpressaðar) sett þær út í matinn við lok matreiðslunnar þannig nýtast góðu eiginleikar þeirra. Prófa ólífuolíu, lárperuolíu og hörfræolíu.

Svefn

Markmiðið er að ná endurnærandi svefni og til þess þarf að ríkja jafnvægi á líkama og sál. Þess vegna þarf að huga að mörgum þáttum og ekki síst þeim atriðum sem hjálpa líkamsklukkunni okkar. Gott getur verið að minnka birtu frá símum og öðrum tækjum stuttu fyrir svefninn. Einnig hafa sumir gott af því að minnka koffín neysluna seinnipartinn.

Hafðu rútínu á svefninum, þetta gildir líka um helgar og á sumrin.  Þó má færa svefntímann aðeins til en ekki um margar klukkustundir. Ef okkur hættir til að fara seint að sofa þá getur verið árangursríkast að færa svefntímann fram um stuttan tíma í einu til dæmis að fara að sofa klukkan hálf eitt  í staðinn fyrir klukkan eitt.

Nýttu þér núvitundaræfingar

Gjörhyggli eða núvitund er ein leið til að takast á við streitu og álag. Streita og álag eru áberandi áhrifaþættir í heilsu en í nútímasamfélagi virðist áreitið aukast jafnt og þétt og vega að nauðsynlegu jafnvægi einstaklinga. Öndun er líklega vanmetnasta stjórntæki líkamans því djúp öndun hefur áhrif á taugakerfið og gagnast öllum á ýmsan hátt, ekki síst á sviði tilfinninga. Það er mikilvægt að læra að slaka á og gefa líkamanum næði til að vinna upp orku. Þegar efla þarf einbeitingu við andlegt og líkamlegt álag og til að auka kyrrð og innri ró er slökun árangursrík. Í slökunarástandi getur þú unnið úr upplifunum dagsins og ert líklegri til að sofa betur.

Útivistin!

Vertu utandyra! Hér á Íslandi búum við í nálægð við náttúruna sama hvar við erum. Það er auðvelt að hoppa út og góður göngutúr leiðir okkur niður að sjó eða í móann. Á göngunni getum við andað að okkur fersku loftinu og öll útivera getur leitt til meiri hreyfingar.

Sólarvörn

Núna á heitum sumardögum sem þessum þarf samt að muna að bera á sig sólarvörnina. Sólargeislun inniheldur ósýnilega útfjólubláa geisla sem skaða húðina okkar og geta með tímanum leitt til húðkrabbameins. Öll geislun sólar skaðar húðina sem er óvarin fyrir henni. Líkaminn er oftast fær um að gera við skaðann en eftir því sem skaðinn er meiri er þó erfiðara að bæta hann. Því er vert að muna eftir sólarvörninni!

Hafðu gaman með fólkinu þínu

Mikilvægt er að hlúa að andlegu hliðinni. Það að eyða tíma með fólkinu sem þér þykir vænt um getur leitt til vellíðunar, gleði, brosa og hláturs. Hlý samvera hefur áhrif á hormónastarfsemina og eykur framleiðslu oxýtósíns. Hormónið oxytósín hefur áhrif á vellíðanartilfinningu okkar. Það að upplifa góðvild, hógværð, hlýju og samúð getur haft jákvæð áhrif á alla líkamsstarfsemi okkar, styrkir ónæmiskerfið og minnkar streituhormón. Núna þegar sumarfríin eru að byrja, notaðu tækifærið og hittu vini og vandamenn.

Nokkur heilsuráð

1. Regluleg hreyfing, bætir og kætir
2. Vatn er besti svaladrykkurinn
3. Próteinin byggja þig upp
4. Trefjarnar standa með þér
5. Nældu þér í góða fitu
6. Svefn er endurnærandi
7. Nýttu þér núvitundaræfingar
8. Útivistin er dásamleg
9. Sólarvörn gegn skaðlegum geislum sólarinnar
10. Hafðu gaman með fólkinu þínu.

Höfundur
Gulla Akerlie, hjúkrunarfræðingur

Share on facebook
Facebook
Share on twitter
Twitter
Share on print
Print
Scroll to Top