Heilsurækt

Ragnheiður Thorsteinsson

LineBreak

Viðtal við Vikuna 17. tbl. 29. apríl 2010

Vefjagigtin farin með markvissri hreyfingu

Ragnheiður byrjaði að finna fyrir þreytueinkennum veturinn 2006. Hún hafði fram að þeim tíma stundað mikla hreyfingu og útivist. „Ég fór að missa þrótt og hætti smám saman að geta gert hluti sem ég var vön að gera. Mér hrakaði mikið á stuttum tíma og leitaði aðstoðar hjá læknum sem fundu ekkert til að byrja með. Í byrjun árs 2007 var ég svo greind með vefjagigt og þá hófst ömurlegt tímabil. Ég upplifði mikla sorg því mér fannst ég vera búin að tapa heilbrigði mínu og væri dæmd til að vera kvalin og þróttlítil það sem eftir væri. Hver dagur var eins og þátttaka í maraþonhlaupi, svo mikil voru átökin við daglegar hreyfingar.

 

Mér fannst þetta í fyrstu mjög skammarlegt og sagði fáum frá ástandinu. Ég vildi ekki fá meðaumkunarstimpil og reyndi eins og ég gat að láta eins og ekkert væri. Ég fékk lyf frá læknum til að komast í gegnum daginn og til að hjálpa mér að sofa. Einnig var mér bent á að það væri gott að hreyfa sig en ekki hvernig gera mætti það með markvissum hætti“ segir Ragnheiður.

 

Þunglyndi og sorg

Ragnheiður segist hafa verið svolítið ein á báti og ekki vitað hvert hún ætti að snúa sér. Sjúkdómurinn lagðist þungt á hana andlega og hún fór að þyngjast. „Í tvö ár lifði ég svolítið ein með sjálfri mér og þessum sjúkdómi. Ég hélt að ég væri dæmd til að lifa með sársauka allt mitt líf og útivist og hreyfing, eins og ég þekki hana, heyrði sögunni til. Ég þyngdist um 15 kíló og var í miklu þunglyndi og sorg. Á tímabilinu hitti ég Önnu Borg sjúkraþjálfara sem sagði mér að það væri ekkert mál að vinna með vefjagigt. Mér létti mikið að heyra þetta þótt enn hafi liðið smátími í viðbót áður en ég fór að gera eitthvað í málunum. Í október 2009 kynntist ég Heilsuborg sem er með nýjar áherslur á sviði heilbrigðisþjónustu og líkamsræktar. Þar er hægt að fá mat á heilsu og áhættuþáttum, viðeigandi meðferð og ráðgjöf og stuðning við að ná markmiðum sínum. Þar starfa læknar, hjúkrunarfræðingar, næringarfræðingar, sálfræðingar og félagsráðgjafar auk íþróttafræðinga og einkaþjálfara.

 

Ég fór í reglulega þjálfun undir leiðsögn Önnu Borg. Ég hef verið í styrktarþjálfun og hóptímum og líf mitt hefur tekið algerum stakkaskiptum. Maður er undir sérstöku eftirliti fagaðila og fær mikinn stuðning og hvatningu. Í leiðinni hef ég tekið á mataræðinu og farið að borða hollari fæðu án þess þó að taka út neinar tegundir. Ég finn mun á mér ef ég borða eitthvert ruslfæði sem ég geri endrum og eins en þá verð ég líka að taka ábyrgð á því sjálf.

 

Ég vissi að það væri mikilvægt að hreyfa sig en að það skipti svona gríðarlega miklu máli vissi ég ekki. Ég fékk svo mkilu meira af heilsunni til baka en ég hafði nokkru sinni þorað að vona. Ég finn stundum fyrir verkjum en ekkert í líkingu við það sem var. Ég er hætt að taka verkjalyf til að komast í gegnum daginn og ég sef mun betur á nóttunni. Mér líður miklu betur andlega og að auki er ég búin að missa fimm kíló. Þetta er nú orðinn minn lífsstíll og ákaflega frelsandi að vera búin að finna út úr þessu,“ segir Ragnheiður.

LineBreak