Heilsurækt

Þóra Magnea Magnúsdóttir

LineBreak

28. apríl 2010

Námskeið: Heilsulausnir 3

 

Að leggjast í rúmið er það versta sem maður gerir

Aðspurð segist Þóra Magnea Magnúsdóttir hafa byrjað í Heilsuborg rétt eftir að stöðin opnaði í haust. Hún var á 12 vikna námskeiði sem kallast Heilsulausnir 3.  „Ég sá umfjöllun um Heilsuborg í Íslandi í dag og ákvað að mæta með vinkonu minni til að kynna mér starfsemina. Okkur leyst strax svo vel á stöðina og það var svo vel tekið á móti okkur og að við byrjuðum báðar að æfa.“ Þóra segist alltaf hafa hreyft sig en það væri langt síðan að hún hefði verið í jafn markvissri hreyfingu og á námskeiðinu.

Þóra segir að henni finnist svo gott að koma í Heilsuborg. „Verð að segja að það er alveg yndislegt fólk í móttökunni, sem er ekki sama um mann. Ég var einu sinni í stórri stöð, nefni engin nöfn, en þar voru almennir tímar oft svo erfiðir fyrir mig. Ég hef verið í dansi og er ágætlega liðug en eftir að ég fékk hryggikt og vefjagikt verð ég að sætta mig við að geta ekki gert sömu hluti og áður. Hér er lögð áhersla á að þú farir ekki fram úr þér því þá er hætta á að maður detti út og komi jafnvel ekki aftur.“

 

Léttist um 7 kg

„Hópurinn skipti mig mjög miklu máli og hvað við vorum hvetjandi fyrir hvert annað, það var einn stærsti þátturinn í því að ná árangri. Okkur gekk öllum mjög vel. Ég léttist um 7 kg og var gaman að sjá allar tölur fara niður nema þoltöluna, hún fór mikið upp og þykir mér eiginlega bara vænt um þoltöluna mína!“ Þóra sagði einnig að henni hefði þótt traustvekjandi að það kæmu margir fagaðilar að námskeiðinu sem nýttist henni mjög vel t.d. sjúkraþjálfari, hjúkrunarfræðingur og læknir.Þóru fannst leikfimin skemmtileg og gott hvað var farið rólega af stað því þá gafst enginn upp. Svo var vel fylgst með hverjum og einum. „Ég veit að við vorum tvær í hópnum sem vorum gigtveikar. Anna Borg, þjálfari hélt svo vel utan um okkur og vissi okkar sögu. Hún lét okkur stundum sleppa ákveðnum æfingu en gera aðrar í staðinn sem hentuðu okkur betur. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar maður fær gigtarkast því þá verður maður svo þreyttur og vill helst leggjast í rúmið en það er það versta sem maður gerir. Ég verð sérstaklega þreytt af vefjagigtinni en þá var svo gott að vera hluti af hópi og það var svo hvetjandi að vita að ég væri að fara að hitta hópinn og þá mætti ég líka. Ég er nú eiginlega þannig að ég borga fyrir að láta lesa mig upp!“

Hætti að vera erfitt

Það getur verið gott að eiga föt í mismunandi stærðum eins og Þóra komst að: „Þegar maður léttist verður allt svo miklu auðveldara. Ég átti sem betur fer gömul föt í mínum fataskáp í ýmsum númerum og var gaman að komast í minni stærðir aftur. Fólk hélt að ég væri að kaupa mér ný föt í kreppunni en það var nú öðru nær!  Það er mjög gott fyrir sjálfsmyndina að léttast og fékk ég hrós frá mörgum. Svo fann ég líka hvað mér fór mikið fram þ.e.  gat gert ýmsar æfingar sem ég gat ekki gert í upphafi auk þess að þyngja lóðin í tækjunum. Það sem var mjög erfitt fyrst, hætti að vera erfitt.“

 

Allir sem tóku á mataræðinu léttust

Þóra leggur áherslu á að fólk verði að vera jákvætt þegar það fer af stað og bera sjálft ábyrgð á eigin heilsu. Hún sagði: „Stöðin gerir ákveðna hluti fyrir þig en þú verður að taka á móti því sem stöðin réttir þér. Ég var búin að fara yfir mitt mataræði u.þ.b. mánuði áður en ég byrjaði á námskeiðinu. Mér finnst mikilvægt að fólk vænti þess ekki að léttast strax en ég get sagt þér að allir sem tóku á mataræðinu á námskeiðinu léttust. Móttækileiki viðskiptavinarins er mjög mikilvægur. Kúnninn verður að vera móttækilegur og verður að taka þátt því hinn aðilinn getur bara takmarkað teymt þig áfram, þitt er valið.“

Eins og verkjastillandi meðferð

„Ég mætti í leikfimina þó ég væri dauðuppgefin og langaði mest að fara beint heim eftir vinnu. Hópurinn hafði þar mest áhrif, það var erfitt að skorast undan því að mæta. Stundum var ég búin að vera mjög slæm af verkjum yfir daginn en ákvað samt að drífa mig í ræktina og fann að ég var miklu betri á eftir. Ég er lítið fyrir að nota verkjalyf og komst að því að hreyfingin virkaði sem verkjastillandi meðferð. Það sem var hvað mikilvægast fyrir mig að læra, var að mér líður miklu betur þegar ég er að hreyfa mig.“

Þóra er núna að kljást við álagsmeiðsli og er nýkomin úr sprautu vegna tennisolnboga. „ Anna, þjálfari er að hjálpa mér að gera réttu æfingarnar því sumt af því sem ég var að gera áður get ég ekki gert núna en ég var í sprautu og vonandi jafnar þetta sig fljótt.“

Að taka á sínum málum

Þóru finnst jákvætt að það er alls konar fólk í Heilsuborg: „Hér er fólk í mjög góðu formi og svo eru aðrir, sem mann grunar að séu að koma í fyrsta sinn inn í líkamsræktarstöð. Það er svo jákvætt og gefandi að sjá fólk ná árangri og taka á sínum málum. Það eru nefnilega ekki auðveld skref að koma í fyrsta sinn inn í líkamsræktarstöð.“ Lokaorð Þóru eru: „Ég mæli alveg tvímælalaust með Heilsulausnum 3. Ég veit að Heilsuborg læknaði mig ekki, enda átti ég ekki von á því, en það er búið að kenna mér nýjan lífsstíl og mér líður miklu betur. Vonandi næ ég bara að lifa eftir því áfram!“

LineBreak